Įheitaganga HSG 2015

Rakel Ósk Snorradóttir skrifaði þann 21. maí 2015 16:58

Hjálparsveit skáta í Garðabæ stendur þétt við bakið á félögum sínum í blíðu og stríðu. Það sem einkennir sveitina er mikil samheldni en á hverju ári leggja sjálfboðaliðar í sveitinni mikið á sig til að láta það göfuga starf sem unnið er í björgunarsveitum ganga upp þar sem þeirra markmið er að vera sem best undir það búin að hjálpa öðrum þegar á reynir.

Á síðastliðnum árum hafa tveir mjög duglegir félagar í sveitinni, Edda Björk Gunnarsdóttir og Eyþór Fannberg, barist hetjulega við krabbamein en Eyþór lést í lok janúar eftir erfiða baráttu. Þau hafa verið virkir meðlimir í Hjálparsveit skáta í Garðabæ undanfarin ár og hefur Edda Björk verið formaður leitartækniflokks í mörg ár og séð um ýmis verkefni á vegum sveitarinnar. Eyþór Fannberg var formaður hundaflokks og æfði upp leitarhunda auk þess að sinna ýmsum verkefnum fyrir sveitina.

Veikindi þeirra hefur reynst öðrum félögum sveitarinnar erfið og vill Hjálparsveit skáta í Garðabæ styrkja fjölskyldur þessara tveggja félaga og ætlar hún að standa fyrir áheitagöngu í sumar, þar sem gengið verður þvert yfir landið eða frá Skógum til Siglufjarðar. Ástæðan fyrir því að gönguferð þvert yfir landið varð fyrir valinu, var af því að bæði eru þau þekkt fyrir mikinn áhuga á fjallgöngum. Þegar það kom að því að taka að sér verkefni fyrir sveitina eða framkvæma hluti þá fóru þau alla leið í þeim efnum og því er þetta táknrænt fyrir því hvernig karakterar þau voru/eru. Lagt verður af stað í gönguna frá Skógum þann 6. júlí og áætlað að enda á Siglufirði þann 26. júlí. Gönguferðinni verður skipt niður í styttri leggi, svo að sem flestir félagar geti tekið þátt, þó ekki sé nema hluta úr leiðinni, en einn félagi ætlar að ganga alla leiðina.

Ef þú vilt styrkja þetta málefni bendum við á styrktarreikninginn 546-26-900 Kennitala: 431274-0199, en allur peningur sem safnast mun renna beint til fjölskydna þessara tveggja félaga sem hafa sinnt mjög svo óeigingjörnu starfi fyrir sveitina undanfarin ár.

Fyrir hönd Hjálparsveit skáta í Garðabæ,
Rakel Ósk Snorradóttir

Aukinn stušningur viš félaga HSG

Elva Tryggvadóttir skrifaði þann 10. maí 2015 08:37

Það er gefandi að vera partur af öflugri björgunarsveit. Viljinn til að hjálpa og láta gott af sér leiða og geta komið öðrum til aðstoðar er allsráðandi. En það er einnig krefjandi að vera í björgunarsveit. Maður veit aldrei hvar eða hvenær þörf er á aðstoð björgunarsveita. Oftar en ekki vinna björgunaraðilar við erfiðar aðstæður og geta þeir alltaf átt von á ýmis konar áföllum í störfum sínum. Því er mikilvægt að hlúa vel að þessum hópi sjálfboðaliða með öflugum forvörnum, góðum sálrænum stuðningi og góðri eftirfylgni. Allt þetta miðar að því félagar hjálparsveitarinnar haldi heilsu og taki áfram virkan þátt í starfinu. 

Hjálparsveit skáta Garðabæ vill standa þétt að baki sínum félögum og hefur undanfarin ár verið unnið markvisst að því að auka þekkingu og styrkja sálrænan stuðning innan sveitarinnar. Sem lið í því að efla eftirfylgni eftir áföll var í vikunni skrifað undir samning við Sálfræðinga Höfðabakka sem felst m.a. í að greiða aðgengi félaga sveitarinnar að fagaðstoð. Sálfræðingar Höfðabakka er stór stofa sem býr yfir mörgum af helstu sérfræðingum landsins í úrvinnslu áfalla og telur hjálparsveitin sig lánsama að hafa slíkan stuðning að baki.

Meðfylgjandi er mynd af Elvari Jónssyni formanni Hjálparsveit skáta Garðabæ og Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðingi hjá Sálfræðingum Höfðabakka við undirritun samningins þann 5. maí síðastliðinn.