REGLUGERÐ FYRIR FLOKKAKERFI HSG
Garðabæ 3. október 2023

1. gr.

Flokkar

Hjálparsveit skáta Garðabæ starfar eftir flokkakerfi.

Innan HSG starfa eftirtaldir flokkar: Beltaflokkur, bílaflokkur, buggyflokkur, hundaflokkur, leitartækniflokkur, nýliðar I, nýliðar II, sjúkraflokkur, sleðaflokkur og undanfarar.

Aðeins fullgildir félagar geta verið meðlimir í flokki. Félagar geta ekki verið meðlimir í Nýliðum I og II nema á meðan þeir sinna nýliðaþjálfun.

Félagar sem ekki starfa með flokki teljast til almennra björgunarmanna.

2. gr.

Almennar reglur um flokka.

Stjórn ákveður hvaða flokkar starfi innan sveitarinnar á hverjum tíma og ákveður fjárhagsramma fyrir þá. Stjórn getur ákveðið að starfsemi flokks verði tímabundið aflögð án þess að flokkur sé lagður niður.

Lágmarksfjöldi í hverjum flokki er 6 fullgildir félagar á hverjum tíma. Til að stofna nýjan flokk þarf sama fjölda fullgildra félaga. Stofnun nýs flokks er háð samþykki stjórnar. Ef fjöldi félaga í flokki fer undir lágmarksviðmið skal stjórnin í samráði við sveitarráð leita leiða til að fjölga félögum í flokknum. Takist ekki að bæta úr innan þess frests sem stjórnin ákveður getur stjórnin ákveðið að leggja flokkinn niður.

Til að bæta við flokki eða leggja niður flokk þarf breytingu á reglugerð þessari í samræmi við lög HSG.

Ef flokkur er lagður niður ákveður stjórn hvað gert skuli við búnað flokksins.

3. gr.

Stjórn flokka.

Hver flokkur skal hafa einn til tvo formenn.

Flokkur kýs formenn fyrir hvert starfsár. Afl atkvæða ræður úrslitum. Formannakosning skal fara fram í upphafi starfsárs en skal í öllum tilfellum vera lokið fyrir aðalfund HSG. Flokkur skal tilkynna stjórn um kjör formanna þegar í stað.

Formenn skulu sjá til þess að flokkurinn sé mannaður hæfum félögum á hverjum tíma.

Formenn flokka skulu sjá til þess að flokkur setji sér markmið til lengri og skemmri tíma auk starfs- og þjálfunaráætlunar fyrir hvert starfsár og skila til stjórnar.

Formenn flokka skulu í samráði við stjórn ákveða hvaða lágmarksútbúnað félagi þarf að eiga til að geta verið meðlimur í viðkomandi flokki.

Flokkurinn skiptir að öðru leyti með sér störfum.

4. gr.

Starfsemi flokka.

Félögum í hverjum flokki er skylt að taka virkan þátt í starfi flokksins samkvæmt starfsáætlun, hlíta ákvörðunum flokksins og taka þátt í útköllum eins og þeim er framast unnt. Nýliðar sem starfa með flokkum þurfa ekki að uppfylla kröfur um lágmarksútbúnað flokksins. Formenn flokka skulu sjá til þess að nýliðar fái verkefni við hæfi svo þeir geti uppfyllt þjálfunaráætlun sína.

Ef flokkurinn hefur umsjá tiltekins búnaðar sveitarinnar skal eftirlit og umhirða búnaðar falin tilteknum félögum í flokknum. Félögum er skylt að ganga vel um allan búnað sveitarinnar og láta umsjónarmann búnaðar vita um bilanir eða tap á búnaði.

Félagar í hverjum flokki skulu hafa yfir að ráða þeim lágmarksútbúnaði sem starfsemi flokksins krefst á hverjum tíma. Ef félagar hafa ekki yfir að ráða nauðsynlegum búnaði getur formaður veitt þeim hæfilegan frest til að útvega viðeigandi búnað.

Formenn geta ákveðið að halda skrá um þátttöku félaga í starfi flokksins.

Ef félagi telst ekki hafa tekið fullnægjandi þátt í starfi flokksins á starfsárinu, hefur ekki sinnt þjálfunaráætlun, hefur ekki útvegað sér þann lágmarksútbúnað sem starfið í flokknum krefst, eftir atvikum innan frests sem honum hefur verið veittur, eða að öðru leyti sýnt af sér vanrækslu eða erfiðleika í samstarfi getur flokkurinn ákveðið að víkja viðkomandi úr flokknum. Afl atkvæða ræður úrslitum. Unnt er að skjóta slíkum ákvörðunum til stjórnar HSG.

5. gr.

Eftirlit stjórnar.

Stjórn hefur eftirlit með starfsemi flokka og sjá til þess að þeir fari að starfsáætlunum sveitarinnar og flokksins.

Stjórn getur ákveðið að fela tiltekinn búnað sveitarinnar í umsjá flokks.

Stjórn sér til þess að nýliðaþjálfarar séu valdir og skal samþykkja sérstaklega formenn tækjaflokka. Ef flokkur hefur ekki kosið sér formenn fyrir aðalfund HSG skal stjórn velja formenn flokksins.

Ef stjórn telur að starfsemi flokks eða háttsemi formanna sé á einhvern hátt ófullnægjandi og/eða ekki í samræmi við lög og reglur sem um HSG gilda, getur hún gefið flokksformönnum hæfilegan frest til að bæta úr. Hafi það ekki tekist innan gefins frests getur stjórnin vikið formönnum flokksins frá og tekið yfir stjórn flokksins.

6. gr.

Nýliðar I.

Inntaka nýliða fer fram í september ár hvert. Sérstök kynning fyrir nýliðastarf sveitarinnar skal fara fram ár hvert fyrir upphaf nýs starfsárs.

Nýliðar skulu verða 18 ára á því ári sem þeir hefja starf í nýliðum I. Þjálfunartími innan Nýliða 1 er a.m.k. 12 mánuðir.

Þjálfun nýliða fer fram skv. þjálfunaráætlun nýliða sem sett er af stjórn HSG og ákvörðunum nýliðaþjálfara.

Þjálfarar Nýliða I skulu vera a.m.k. tveir fullgildir félagar HSG. Félagar sveitarinnar skulu veita aðstoð við nýliðaþjálfun eftir því sem frekast er unnt.

Til að ljúka nýliðaþjálfun þurfa nýliðar að hafa uppfyllt öll skilyrði þjálfunaráætlunar. Takist nýliða ekki að uppfylla kröfur nýliðaþjálfunar getur hann hafið þjálfun að nýju á næsta starfsári ef nýliðaþjálfarar mæla með því.

Beiðni um undanþágu frá nýliðaþjálfun skal send til stjórnar sem tekur ákvörðun að undangengnu samráði við nýliðaþjálfara.

Nýliðar teljast ekki fullgildir félagar í HSG.

Stjórn getur ákveðið að innheimta árlegt gjald fyrir þjálfun innan nýliða I sem taki mið af kostnaði við ferðir, gistingu og uppihald.

7. gr.

Nýliðar II

Til að hefja þjálfun innan Nýliða II þarf nýliði að hafa lokið þjálfun innan Nýliða I með fullnægjandi hætti eða hafa fengið undanþágu skv. lokamálsgrein 6. gr.

Þjálfunartími innan Nýliða II er a.m.k. 6 mánuðir.

Þjálfarar Nýliða II skulu vera a.m.k. tveir fullgildir félagar HSG. Félagar sveitarinnar skulu veita aðstoð við nýliðaþjálfun eftir því sem frekast er unnt. Formenn flokka sem taka nýliða inn í starfsemi síns flokks skulu sjá til þess að nýliði fái fullnægjandi þjálfun innan flokksins á meðan hann starfar þar.

Takist nýliða ekki að uppfylla kröfur nýliðaþjálfunar getur hann hafið þjálfun að nýju á næsta starfsári ef nýliðaþjálfarar mæla með því.

Þjálfun nýliða fer fram skv. þjálfunaráætlun nýliða sem sett er af stjórn HSG og ákvörðunum nýliðaþjálfara.

Til að ljúka nýliðaþjálfun innan Nýliða II þurfa nýliðar að hafa uppfyllt öll skilyrði þjálfunaráætlunar.

Þegar nýliði hefur lokið þjálfun innan Nýliða I og II með fullnægjandi hætti skv. þjálfunaráætlun, fullnægir kröfum HSG um útbúnað fullgildra félaga sveitarinnar og sýnt fram á fullnægjandi getu til þess að takast á við verkefni sveitarinnar, að mati nýliðaþjálfara og stjórnar, býðst honum að skrifa undir eiðstaf sveitarinnar og verða þá fullgildur félagi í HSG.

Undirskrift eiðstafs HSG skal almennt fara fram á sveitarfundi.

© Hjálparsveit skáta Garðabæ - Jötunheimar við Bæjarbraut -  210 Garðabær - hjalparsveit@hjalparsveit.is

kt: 431274-0199 - Styrktarreikningur: 0546-26-900